140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:30]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef lesið þessa skýrslu frá Daða Má Kristóferssyni og Stefáni B. Gunnlaugssyni og mér fannst hún mjög áhugaverð. Ég hef reyndar litið allar athugasemdir sérfræðinga þeim augum að þær séu lagðar fram til að bæta málið. Ég er allsendis ósammála því, ef spurt er að því, að það rýri gildi þeirra álita að þau séu unnin fyrir tiltekna aðila. Ég er mjög andsnúin slíkum málflutningi. Þá getum við alveg eins sagt að það eigi ekki að leggja nein mál til umsagnar yfirleitt, það eru alltaf einhverjir sem skrifa umsagnirnar og það er alltaf út frá einhverjum lagalegum sjónarmiðum eða hagfræðilegum sjónarmiðum sem menn leggja slíkar upplýsingar fram.

Í þessu máli erum við með mjög greinargóðar skýrslur frá færum sérfræðingum í landinu, frá þeim aðilum sem hv. þingmaður nefndi og einnig frá mjög virtum lögfræðingum sem færa reyndar allir — og það er mjög áhugavert — fram sömu röksemdirnar gegn frumvarpinu. Það eru alltaf þessir þrír þættir sem snúa að grundvelli skattlagningar. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu eigum við að taka það alvarlega og taka það til greina og breyta þessum frumvörpum.