140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:42]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir um margt málefnalega ræðu.

Mig langar að gera að umtalsefni það sem hún sagði um mótmælafundinn á Austurvelli í gær. Hv. þingmaður sagði að sér fyndist sem þingmenn Samfylkingarinnar hefðu ekki heyrt það sem þar var sagt. Það mættust auðvitað tveir hópar á Austurvelli í gær, hvor með sína skoðunina. Mér heyrðist sem hv. þingmaður hefði bara heyrt í öðrum hópnum.

Ég er þeirrar skoðunar að okkur beri að hlusta á bæði sjónarmið í þessum efnum og það er það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera á síðustu þremur árum með mjög ólíkum útfærslum á breytingum á lögum um stjórn fiskveiða. Málið er nú komið á þann stað þar sem það er nú og kannski hefði mátt viðhafa meira samráð. En það hefur að minnsta kosti töluvert verið lagt í þá vinnu, annars hefðu menn klárað málið á fyrsta starfsári þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvernig hún geti réttlætt það að segja að veiðigjöldin séu landsbyggðarskattur. Er það þá svo að sjávarútvegsfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu borgi ekki veiðigjöld? Þá ber nýrra við ef svo er. Hvernig er hægt að halda því fram að veiðigjaldið sé fyrst og fremst landsbyggðarskattur? Ég mundi gjarnan vilja heyra rökstuðning fyrir því.