140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:45]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Ég fagna því ef hv. þingmaður hefur hlustað á mótmælin í gær, á það sem menn höfðu þar að segja og fram að færa. Það er gott ef einhver gerði það, mér fannst það nefnilega ekki koma fram hjá þeim hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem kvöddu sér hljóðs undir liðnum störf þingsins fyrr í dag.

Á mótmælafundinum í gær flutti annar hópurinn ávörp og kom skoðunum sínum á framfæri. Hinn hópurinn púaði á þann sem talaði hverju sinni. Það var í sjálfu sér ekkert sem kom fram frá þeirri hlið mótmælanna annað en sú afstaða að vilja ekki leyfa þeim sem voru á annarri skoðun að koma sinni hlið á framfæri, það leit þannig út fyrir mér. Hrópin hækkuðu í takti við það sem fólkið sem flutti ávörpin var að segja. Í flestum þeim erindum sem haldin voru voru alþingismenn ávarpaðir sérstaklega og í lokin var skorað á okkur að gera ákveðna hluti. Það var skorað á okkur að hlusta og kynna okkur málin, flóknara var það nú ekki. Ég tel að við eigum að gera það.

Varðandi það mikla samráð sem almennt hefur verið viðhaft þá settust menn vissulega niður og reyndu að finna lausn. Út úr því kom sú sáttaleið sem menn ætluðu að fara. En það þýðir ekkert að tala um að hún hafi verið farin þar sem allri þeirri vinnu var kastað fyrir róða daginn eftir að henni lauk í staðinn fyrir að reyna að halda áfram á sömu braut og klára málið í sátt. Það var afskaplega dapurlegt að horfa upp á það.

Ég næ því miður ekki að svara öllum spurningum en vonast til að ná því í síðara andsvari.