140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur.

Mig langar að spyrja þingmanninn að því hvort það sé ekki mjög sérstakt og mjög óskynsamlegt að standa í því nú að breyta okkar góða fiskveiðistjórnarkerfi sem er meira að segja tilnefnt til verðlauna á heimsvísu. Það er tilnefnt vegna stefnumótunar sem er til þess fallin að skapa meiri lífsgæði fyrir núverandi kynslóðir og kynslóðir framtíðarinnar. Þetta eru mjög merk verðlaun og það eru stofnanir á vegum Sameinuðu þjóðanna sem tilnefndu Íslendinga til þeirra. Tilnefningarnar koma frá sérfræðingum á sviði sjávarútvegsmála hjá alþjóðastofnunum, háskólastofnunum og sjálfstæðum rannsóknarstofnunum og það á að afhenda þessi verðlaun í september. Það er sem sagt horft til gæða okkar hér á landi og þess kerfis sem búið er að byggja upp.

Þá kemur það fram á sama tíma að Samfylkingin lagði inn umsókn til Evrópusambandsins. Er ekki óeðlilegt að hafa þessi tvö mál opin á sama tíma? Er ekki mjög óeðlilegt að hjá Evrópusambandinu liggi umsókn frá okkur Íslendingum þegar við erum með þetta stóra, sterka og flotta kerfi sem meira að segja Evrópusambandið lítur til? Af hverju á þá að rústa þessu kerfi núna og leggja þetta til? Hvaða pólitík á heimsvísu er í þessu að mati hv. þingmanns? Er verið að brjóta niður kerfi til þess að ef til vill verði betra að semja um sjávarútvegskaflann hjá Evrópusambandinu? Hvernig er samhengi hlutanna á milli þessara tveggja þátta?