140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir það í fyrri ræðum mínum hversu gott fiskveiðistjórnarkerfið okkar er. Það er ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk en aðrar þjóðir horfa til þess með mikilli velþóknun og kannski örlítilli öfund yfir því að við Íslendingar getum rekið sterkan og öflugan sjávarútveg án ríkisstyrkja. Það er það fallega og flotta við kerfið okkar sem aðrir hafa talað um að þeir vilji taka sér til fyrirmyndar.

Oft er vísað til þess að Evrópusambandið, sem ætlar sér einhvern tímann í framtíðinni að endurskoða sjávarútvegskerfi sitt, hafi horft mjög til Íslands, til þess hvernig við gerum hlutina hér. Við þekkjum hvernig breytingar ganga fyrir sig þar á bæ, það tekur langan tíma þegar verið er að breyta stórum kerfum. Við sjáum það því ekki fyrir okkur að Evrópusambandið innleiði íslenska fiskveiðistjórnarkerfið hjá sér, enda er þarna mjög mikill munur á, sérstaklega varðandi ríkisstyrkina. En hvort og hvernig þessi tvö mál tengjast, þ.e. breytingarnar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu og umsóknin að Evrópusambandinu, ætla ég ekki að fabúlera um, ég sé ekki tenginguna þar á milli.

Það er í raun hrópleg mótsögn að við skulum annars vegar eiga þetta kerfi, sem meðal annars Evrópusambandið horfir á sem fyrirmynd að góðu fiskveiðistjórnarkerfi, og hins vegar sú afstaða alþingismanna úr stjórnarliðinu að vilja kippa fótunum undan því kerfi. Ég sé ekki rökin fyrir því. Sagt var af hálfu þeirra flokka sem nú sitja í ríkisstjórn að breyta þyrfti kerfinu. Skiptir þá engu hvaða athugasemdir eru gerðar við það. Sumar eru meira að segja það alvarlegar að nánast er fullyrt að sjávarútvegsfyrirtækin okkar muni fæst komast í gegnum þær breytingar. Ég get ekki svarað því hvers vegna menn fara af stað í þessar breytingar.