140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísaði til þess í fyrra andsvari mínu að ríkisstjórnin hefði nú þegar fengið á sig dóma Hæstaréttar. Gengislánadómurinn svokallaði sem er byggður á hinum svokölluðu Árna Páls-lögum fjallaði akkúrat um afturvirkni laga. Í því frumvarpi sem síðar varð að lögum voru lagðir á vextir aftur í tímann. Það er bara nýjasta dæmið. Mig minnir að þessi dómur hafi fallið í mars. Sú afturvirkni sem er verið að benda á hér í þessu, að Hagstofan eigi að búa til eitthvert reiknilíkan og byggja á afturvirkni, er hreinlega óheimil.

Verði þetta frumvarp að lögum get ég fullyrt að þessi ríkisstjórn á eftir að verða landsmönnum dýr vegna þeirra ágreiningsmála sem kunna að rísa af því. Það gefur augaleið að afturvirk lög eiga eftir að lenda fyrir dómstólum og ekki síður að þau brjóti gegn bæði 40. gr. sem er skattagrein, 77. gr. sem er líka skattagrein og svo eignarréttarákvæðinu í 72. gr. og atvinnuréttindunum í 75. gr. Það ónýtir frumvarpið.

Þarna erum við að tala um að það er farið gegn grundvallaratriðum í lagasetningu. Það er svo ótrúlegt að ekki skuli vera hægt að draga gardínurnar frá á stjórnarheimilinu og sjá í hvað farvegi þetta er. Ekki er hlustað á stjórnarandstöðuna, ekki á ráðgjafa og ekki á lögfræðinga. Þetta er bara sorglegt.