140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom aðeins inn á það sem ég held að skýri margt í aðdraganda þessa máls. Það eru þau innbyrðis átök sem blasað hafa við okkur um þessi mál innan ríkisstjórnarflokkanna. Við skulum ekki gleyma því að í september 2010 kom hin fræga sáttanefnd fram með álit sitt og allir hefðu búist við því þá að verkið yrði tiltölulega fljótunnið eftir það, en í staðinn hófst mikil togstreita. Sú togstreita var innan stjórnarflokkanna því að þar var málið unnið, það var ekki unnið af neinum öðrum, það var ekki togstreita við hagsmunaaðila eða við stjórnarandstöðuna heldur var þetta togstreita milli stjórnarflokkanna og hefur birst okkur í mismunandi áherslum innan þeirra eins og við vitum öll.

Svo kom sjávarútvegsfrumvarpið fram í fyrra, í byrjun júní að ég hygg, og við tókum 1. umr. um málið. Því máli var vísað til nefndar og nefndin vísaði því til umsagna. Það mál var síðan drepið vegna þess að það hafði engan pólitískan stuðning í ríkisstjórnarflokkunum þrátt fyrir að það hefði verið borið fram sem stjórnarfrumvarp í upphafi. Nákvæmlega það sama virðist mér vera með þetta frumvarp núna, það eru mikil innbyrðis átök á bak við það. Við skynjum að það var auðvitað ástæðan fyrir því að málið dróst og var ekki lagt fram fyrr en í lok mars á þessu ári þrátt fyrir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segði að það væri ekki mikið verk að ljúka því.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki þeirrar skoðunar að þetta frumvarp hafi goldið þessara átaka. Er ekki ein skýringin á því að efni þess er svona mótsagnakennt og stangast á við ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar að mati ýmissa lögmanna og við ýmsa aðra þætti og það er svona innbyrðis mótsagnakennt, skattlagningaraðferðin svona galin eins og allir vita, af því að ríkisstjórnarflokkarnir gátu ekki almennilega einbeitt sér að efni málsins vegna þess að það var svo mikið tog innan þeirra (Forseti hringir.) um hina pólitísku stefnu?