140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég held að það hljóti að vera að frumvarpið sé svo illa unnið vegna innbyrðis átaka á ríkisstjórnarheimilinu. Það getur ekki verið með öðrum hætti. Hafi hv. þingmaður ekki heyrt ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar í dag bendi ég honum á að fá hana útprentaða því að þar rekur hv. þingmaður ferlið frá því að hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason settist á ráðherrastól þar til hann hann fór úr honum og varð óbreyttur þingmaður. Það var rosalegt átakatímabil í ríkisstjórninni og hv. þm. Atli Gíslason sagði að það hefði engu verið líkara en að þingmönnum stjórnarliðsins hafi verið veitt skotleyfi á þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér þessa ræðu til að fá yfirsýn yfir átökin á stjórnarheimilinu.

Sáttanefndin sem skipuð var skilaði mjög góðu starfi en ég ímyndað mér að sú nefnd hafi bara verið stofnuð upp á punt því að þegar hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur var ljóst að komin var sátt innan nefndarinnar á milli allra aðila varð allt vitlaust. Það var bara of gott til að vera satt að komin væri sátt í sjávarútvegsmálin, hugsið ykkur. Og þetta er forsætisráðherra landsins. Þar með setti hún málið allt upp í loft á nýjan leik, eins og hún vinnur alltaf, því miður.

Ég segi nú bara: Hvers á þjóðin bara að gjalda í þessu máli sem og öðrum að hafa hér forsætisráðherra sem fer fram með öll mál í ófriði en ekki friði?