140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ræðu hans. Mjög gagnlegt er að fara yfir það sem hann fór yfir til upprifjunar.

Mig langar að spyrja þingmanninn að því, þar sem Samfylkingin og nokkur hluti Vinstri grænna lagði inn umsókn að Evrópusambandinu sumarið 2009, hver skoðun hans er á því að hafa þessi tvö mál opin bæði í einu, þ.e. nú liggur allt undir í sjávarútvegsmálunum á Alþingi hjá ríkisstjórninni og svo er umsóknin að Evrópusambandinu opin líka. Er ekki óskynsamlegt að hafa tvö svo stór mál í óvissu, sérstaklega í ljósi þess að það er verið að rústa hér kerfi sem er tilnefnt til verðlauna á alþjóðavísu? Margir horfa til okkar ágæta fiskveiðistjórnarkerfis sem á rætur að rekja til ársins 1990. Hefur þetta einhver áhrif á umsóknina eða sér þingmaðurinn einhverjar hættur samfara því að þessi tvö mál séu bæði opin í einu? Við eigum náttúrlega mikið undir að verja hagsmuni okkar í sjávarútvegi komi til aðildar að Evrópusambandinu.

Hin spurningin sem ég ætla að leggja fyrir þingmanninn er hvað honum finnist um það skattlagningarframsal sem lagt er til í frumvarpi þessu, ekki einasta er gefin út reglugerðarheimild í frumvarpinu til ráðherra heldur er beinlínis farið niður í embættismannakerfið þar sem þrír aðilar verða fengir til að ákveða þá skattlagningu sem boðuð er í frumvarpinu. Telur þingmaðurinn þetta ekki skýrt brot á stjórnarskránni?