140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[18:57]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki bara að það frumvarp sem við ræðum í dag kunni mögulega að draga úr tekjum annars staðar í kerfinu heldur hefur óvissan, sem hefur ríkt frá því að nýja ríkisstjórnin tók við, líka haft mikil áhrif í þessu efni. Beinu áhrifin af þessu frumvarpi, þ.e. af því að stórauka svo gjaldtökuna upp í 15 milljarða, kannski 20, það er ekki auðvelt að reikna það nákvæmlega fyrir fram, munu augljóslega vera þau að það dregur úr möguleikum útgerðarinnar til þess að fara í nýfjárfestingar og það dregur úr krafti og getu útgerðarinnar til að sækja fram. Henni verður einfaldlega skömmtuð ákveðin framlegð og allt sem umfram verður verður sniðið af af stjórnvöldum.

Ég tel að þetta sé í raun og veru besta leiðin til að lýsa því hversu langt á að ganga með þeim hugmyndum sem hér eru kynntar til sögunnar. Ég held að hægt sé að gera þetta með miklu hóflegri hætti þannig að við séum í raun og veru að skipta auðlindarentunni.

Nú er ég bara að lýsa áhrifum þess frumvarps sem við ræðum hér, þ.e. frumvarp um veiðigjöld. Önnur óbein áhrif sem hafa haft gríðarlega mikil áhrif á umsvif og fjárfestingar í sjávarútvegi eru pólitísk óvissa, frumvarpið um stjórn fiskveiða og fyrri hugmyndir sem hafa komið fram á þessu kjörtímabili. Allt þetta hefur valdið því að fjárfestingar í sjávarútvegi, sem áður voru að meðaltali um 20 milljarðar á ári, hafa hrokkið niður í um 5 milljarða. Við erum með um ¼ af fjárfestingu í greininni miðað við það sem áður var, aðallega út af pólitískri óvissu.