140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur löngum verið skýrt að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er ekki sérstakur aðdáandi ríkisstjórnarinnar, hvað þá forustumanna flokkanna, eins og fram kom í ræðu hennar áðan. Hvað um það, hér ræðum við um annað mál, við ræðum hér frumvarp til veiðigjalda sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í hvernig falli að stefnu Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum. Miðað við ályktun síðasta landsfundar Framsóknarflokksins finnst mér einhvern veginn eins og það sé dálítill samhljómur með stefnu Framsóknarflokksins í þessum málum og því sem fram kemur í því frumvarpi sem við ræðum um.

Í stefnu Framsóknarflokksins er talað um auðlindagjald. Í stefnu Framsóknarflokksins er talað um að byggja eigi stjórn fiskveiða á grunni aflahlutdeildar og aflamarks. Í stefnu Framsóknarflokksins er talað um tvo hluta eða potta. Reyndar gengur Framsóknarflokkurinn heldur lengra en gert er í því frumvarpi sem nú er til umfjöllunar í atvinnuveganefnd hvað það varðar, þ.e. að sá hluti á að vera talsvert stærri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Varðandi það frumvarp sem hér um ræðir langar mig að spyrja hv. þingmann að því hvort hún sé andvíg þeirri tillögu sem fram kemur í frumvarpinu sem felur í sér að innheimta eigi auðlindagjald með tvennum hætti, þ.e. annars vegar með fast gjald sem snýr að því og á að standa undir rekstri sjávarútvegsins af hálfu hins opinbera og hins vegar gjald nátengt afkomunni sem fylgi afkomunni upp og aukist þegar gengur vel en fari niður og (Forseti hringir.) hverfi jafnvel þegar verr gengur.