140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að minna hv. þingmann á að við þingmenn skrifum undir eið að stjórnarskránni þegar við tökum sæti á Alþingi, við heitum því að vinna hér eftir okkar bestu sannfæringu og samvisku. Ég er kosin þingmaður þetta kjörtímabil og þess vegna tek ég þátt í störfum þingsins. Mér er alveg sama þó að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafi komið til hv. þm. Björns Vals Gíslasonar í gær og tilkynnt honum þetta. Ég er hér á mínum forsendum, eðlilega, sem þingmaður Reykjavíkur. En mér finnst dapurlegt, herra forseti, að hv. þingmaður skyldi hafa notað þetta stutta andsvar við mig til að hrauna enn einu sinni yfir Sjálfstæðisflokkinn, því að við vitum alveg hvaða stefnu búið er að taka hjá þessari ríkisstjórn. Það sjá það allir sem fylgjast með umræðum að ríkisstjórnarflokkarnir eru að reyna að einangra Sjálfstæðisflokkinn í störfum þingsins, í stjórnarskrármálinu, í þessu máli og fleirum. En það verða ríkisstjórnarflokkarnir að eiga við sig og ég veit það og hef séð að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru tilbúnir til að taka upp þann málflutning og standa náttúrlega með sjálfum sér. Þeir geta barist við ríkisstjórnina jafn vel og við þingmenn Framsóknarflokksins.

Það liggur alveg fyrir að það er mikill samhljómur með tillögum Framsóknarflokksins og þessu frumvarpi. En ég ítreka að við framsóknarmenn munum ekki samþykkja frumvarpið óbreytt og ekki heldur eftir að meiri hlutinn lagði fram þessar breytingartillögur. Með því valdaframsali sem felst í frumvarpinu, með því að skipa þriggja manna nefnd, afsala menn sér ekki einungis valdi frá Alþingi til ráðherra með reglugerð heldur á ráðherrann að skipa nefnd til að fara með þá útreikninga sem veiðileyfaskatturinn á að byggjast á. Valdaframsalið er aukið í breytingartillögunum og það get ég ekki sætt mig við frekar en öll hin stjórnarskrárbrotin sem er að finna í frumvarpinu.