140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það í ræðu í dag, það sáttaboð sem við framsóknarmenn lögðum fram og var svæft í nefnd. Þegar málin voru komin í hnút, eftir að hv. þm. Jóni Bjarnasyni var vikið úr ríkisstjórn, lögðum við fram þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin mundi skipa starfshóp fulltrúa allra flokka, hagsmunasamtaka, verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka atvinnulífsins og fleiri aðila, en sú tillaga fékkst ekki rædd. Það er nú svo með samráð að það verður að vera samráð en ekki einræði. Því miður, verð ég að segja aftur, virðist það henta einhverjum í ríkisstjórnarflokkunum að hafa þetta mál upp í loft. Þroskinn er ekki meiri en svo.

Við erum að kalla eftir samráði og samvinnu. Ég hef sem þingmaður reynt að benda á gallana í frumvarpinu og er búin að gera það í mörgum ræðum. Gallarnir í frumvarpinu eru aðallega þeir að mínu mati að það stríðir gegn stjórnarskránni. Ríkisstjórnin hefur fengið á sig hæstaréttardóma vegna þess að hér hafa farið í gegnum þingið frumvörp á þeirra ábyrgð og orðið að lögum og þau hafa síðan verið dæmd ólögleg. Gengislánadómurinn bannaði til að mynda afturvirkni laga. Það stendur skýrt í lögum að ekki má setja afturvirk lög. Stjórnarandstaðan hamaðist alveg hreint hér við að benda ríkisstjórnarflokkunum á þetta þegar þau lög voru samþykkt. Nei, nei, það var ekki hlustað, og hvað gerðist? Hæstiréttur þurfti að skipta sér af stjórn landsins, talandi um þrígreiningu ríkisvaldsins. Þetta er ekki boðlegt.

Ég ítreka aftur: Við framsóknarmenn viljum hafa fulla samvinnu í þessu máli, vera með samráð og hafa frumvörpin þannig úr garði gerð að þau standist stjórnarskrá en það er ekki í boði því að hér er einungis einræði í boði.