140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það breyti engu þótt hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni hafi tekist að orga sig bláan af bræði við að flytja ræðu sína, ég efast um að jafnmikil vitleysa hafi komist fyrir í annarri ræðu um þetta mál til þessa, a.m.k. í þessari umræðu.

Um hvað er hv. þingmaður að tala? Hefur hv. þingmaður ekki kynnt sér frumvörpin? Hann talar eins og hér sé um allt önnur mál að ræða. Hvaða kerfisbreyting er að fara fram? Er verið að leggja af aflahlutdeildarkerfið? Það stendur ekki til. Það hefur hvergi nokkurs staðar verið lagt til. Er verið að leggja af aflamarkskerfið? Það er hvergi lagt til. Engum þingmanni hefur dottið í hug að gera það í þessum málum. Það stendur hvergi nokkurs staðar í frumvörpunum. Það er verið að gefa þeim sem vilja nýta sér þessa auðlind til 20 ára yfir 90% heimildanna. Hvað vill hv. þingmaður? Það kom ekki fram í ræðu hans áðan. Hvaða breytingar telur hann að þurfi að gera á fiskveiðistjórnarkerfinu varðandi gjaldheimtuna, varðandi veiðigjöldin, ef þá nokkrar? Hvernig vill hv. þingmaður sjá þær breytingar verða? Er hann jafnvel þeirrar skoðunar að það þurfi ekki, að við höfum náð ákveðinni fullkomnun í málinu og einhvern veginn einhverri pólitískri fullnægingu hvað það varðar eða vill hann gera einhverjar breytingar sem hann telur nauðsynlegt að gera?