140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir frumvarpið og fór yfir gjaldtökuna í nokkuð ítarlegu máli. Ég vitnaði í Ragnar Árnason prófessor sem taldi að hér væri um að ræða 70%, eða það samsvaraði 72%, skatt á hagnað. Prófessorinn vísaði til þess að það væri mesti skattur sem hann hefði séð. Menn geta svo lagt þetta út á ýmsan hátt. Röksemdafærslur prófessorsins voru þær, svo ég fari yfir það aftur í þessu örstutta andsvari, að fastagjaldið kæmi niður á útveginum, alveg sama hver afkoman væri þannig að hér væri um að ræða skatt hvort sem hagnaður væri eða tap. Það að hafa þetta byggt upp með þessum hætti mundi ýta undir óarðbæra útgerð. Stóra einstaka málið er hins vegar það að hér hafa menn tekið eina svokallaða meðalútgerð en það er bara þannig að það er ekkert til sem heitir meðalútgerð, það er bara meðaltal.