140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum séð undarlegar hugmyndir stjórnvalda oft og tíðum og ein hugmyndin núna er að reyna að selja hlut í fjármálafyrirtækjum og fjármagna með því kosningavíxil sem kallaður er fjárfestingaráætlun. Ég efast um að það gangi sérstaklega vel eftir nýjustu fréttir af fjármálastjórn þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að SpKef eða þegar við horfum á þau frumvörp sem liggja hér fyrir þar sem fjármálastofnanirnar og samtök þeirra lýsa því mjög ákveðið hvaða afleiðingar þetta kynni að hafa fyrir stofnanirnar.

Virðulegi forseti. Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja kemur fram að þeir vara við því að grundvallarbreytingar verði gerðar á sjávarútvegskerfinu, á skilyrðum greinarinnar akkúrat þegar Ísland er í efnahagslægð og þarf á öllu sínu að halda. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann taki undir að það sé gersamlega fáránlegt að á sama tíma og menn lýsa því yfir að þeir vilji selja fjármálastofnanir, að kippa undan þeim fótunum, sömu stofnunum og á að reyna að selja.