140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður benti á nokkra þætti. Hann nefndi SpKef sem eftirlitsnefnd þingsins, hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, er ekki enn búin að fjalla um, fara yfir og rannsaka þau augljósu lögbrot sem hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra framdi í því máli. En við erum ekki að ræða það núna.

Hv. þingmaður spyr hvaða skynsemi sé í því að veikja eigið fé fjármálastofnana sem menn ætla síðan að selja og fá mikinn pening fyrir. Það er einfalt svar við því, það er engin skynsemi í því. Það segir allt um vinnubrögðin í þessu, þetta var ekki kannað og ekki skoðað áður en frumvarpið var lagt fram. Þegar maður segir frá þessu heldur fólk að maður sé að ýkja. Hvernig má það vera að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki kannað þetta, vegna þess að þetta var mikið í umræðu? Og þeir gleymdu því líka þegar þeir skelltu bílslysafrumvörpunum fram fyrir ári.