140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur vitanlega verið augljóst í býsna langan tíma að sú ríkisstjórn sem nú situr rekur einhvern veginn þessa „þetta reddast“-stefnu, þ.e. að reyna að selja hluta í fjármálafyrirtækjum og telja fólki trú um að fyrir það fáist einhverjir aurar þannig að hægt verði að fara í loforðaaustur og fjárhagsaustur úr þessum loforðapotti. Allir sjá í fyrsta lagi að það er nánast galið að reyna að selja slíka hluti í dag og í öðru lagi þegar ríkisstjórnin fer svo bakdyramegin og veikir grundvöll þessara fyrirtækja, þá sjáum við bara hvers konar rugl er í gangi, hv. þingmaður.

Ég hlýt því að spyrja hv. þingmann líka út í þær umsagnir sem hafa komið frá Arion banka og Landsbankanum þar sem þær stofnanir, væntanlega á að selja hlut í annarri þeirra, vara einnig líkt og Samtök fjármálafyrirtækja við þessu sama, þ.e. að þetta muni veikja stöðu bankanna, þetta muni veikja stöðu þeirra fyrirtækja sem eru jafnvel búin að fara í gegnum endurskipulagningu á sínum hlutum hjá bönkunum og þetta muni valda mikilli óvissu um fjármögnun annarra fyrirtækja í framtíðinni í þessum geira.