140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem upp því að ég hef raunverulegar og verulegar áhyggjur af því hvernig þingstörfin ganga fyrir sig á Alþingi. Mér var tjáð áðan þegar ég gekk í hús að hv. þm. Björn Valur Gíslason hefði minnst á mig fyrr í kvöld. Ég fór og hlustaði á það sem hv. þingmaður sagði um þann er hér stendur og hafði einhver orð eftir.

Nú er það þannig, hæstv. forseti, að ég hef ekki verið sérstaklega hrifinn af þeirri aðferðafræði sjálfstæðismanna að hlusta ekki á hv. þm. Björn Val Gíslason. En ég verð að segja að ég hef ákveðna samúð með því núna eftir að hv. þingmaður kemur aftur annað kvöldið í röð og fer einfaldlega með rangt mál í ræðustól, vitnar rangt í samtöl, meira að segja tveggja manna samtöl sem menn fara ekki með í ræðustól Alþingis. Það er algerlega óþolandi, herra forseti, að þingmaðurinn skuli leika þennan leik kvöld eftir kvöld að koma í þennan stól og segja ósatt.

Í fyrsta lagi vitnum við ekki beint í tveggja manna samtöl í ræðustól, sem menn eiga utan þessara veggja eða hver milli annars, það gerum við ekki. Í öðru lagi, ef menn brjóta þá reglu þá er lágmark að fara rétt með. Þessi maður, hv. þm. Björn Valur Gíslason, á fyllilega skilið þá meðferð sem sjálfstæðismenn sýna honum hér.