140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:29]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Aðeins út af orðum hv. þingmanns. Það virðist vera þannig með suma einstaklinga að erfitt er fyrir þá að finna sannleikann þar sem ósannindi eru að þvælast fyrir.

En ég vildi aðeins ræða við hæstv. forseta um fundarstjórn forseta og um þinghaldið fram undan og spyr hæstv. forseta hvort það lægi fyrir hversu lengi þessi þingfundur muni standa.

Búið er að boða til þingfundar í fyrramálið kl. 10.30 og þetta er fjórði föstudagurinn í röð sem við höldum þingfundi. Við höfum séð, herra forseti, að það er eitt og annað sem fer aflaga í þingstörfum (Forseti hringir.) þegar kvölda tekur. Ég veit að hæstv. forseta er mjög umhugað um virðingu Alþingis, ég spyr því hæstv. forseta hvort hann geti upplýst hversu lengi þessi þingfundur eigi að standa.