140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir svörin sem hann gaf en verð að segja að mér þótti þau helst til rýr. Það er rétt að það eru margir á mælendaskrá og það er rétt að margt er órætt en það verður væntanlega aftur boðaður fundur á þessu ágæta löggjafarþingi þannig að mælendaskráin þarf kannski ekki að tæmast í kvöld. Ég á heldur ekkert sérstaklega von á því vegna þess að enn er margt órætt.

Það vekur hins vegar athygli, og þar er ekki eingöngu við hæstv. forseta að sakast vegna þess að ég held að aðrir beiti sér fyrir því að þingið starfi með þeim hætti sem raun ber vitni, að hér hefur eina ferðina enn verið sett met af hálfu þessarar vinstri ríkisstjórnar. Metið er það að aldrei (Forseti hringir.) áður í þingsögunni, a.m.k. ekki miðað við síðustu 10–15 þing, höfum við farið fleiri mínútur (Forseti hringir.) fram yfir kl. 20 þegar þingfundi hefur átt að ljúka á þeim tíma. Þetta er enn eitt afrekið sem þessi vinstri stjórn getur þakkað sér.