140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti lýsti því yfir áðan að hann hygðist halda fundi áfram vegna þess hversu margir hv. þingmenn væru enn á mælendaskrá. En við hljótum að hafa það að markmiði að umræðurnar skili árangri, að hér eigi sér stað rökræða. Á mælendaskrá eru 14 eða 15 hv. þingmenn, þar af ekki einn einasti stjórnarliði.

Hæstv. utanríkisráðherra lýsti því yfir við upphaf 2. umr. að hann teldi æskilegt að umræðan yrði sem lengst og sem mest til að umræður í þingsal mættu verða til að bæta málið. Hæstv. utanríkisráðherra er ekki staddur í salnum til að taka þátt í umræðunni og læra hvað megi bæta. Hvaða árangri skilar það ef menn benda hvað eftir annað á mjög alvarlega galla við þessi frumvörp en stjórnarliðar halda sig einfaldlega fjarri, kjósa að loka eyrum og augum fyrir öllum ábendingum?

Ég skora á virðulegan forseta að hafa umræðu (Forseti hringir.) um þetta mál með þeim hætti að hún sé líkleg til árangurs.