140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að vísu að viðurkenna að mér finnst þetta ekki vera spurning um útfærslumál, í mínum huga er þetta grundvallarmál. Mér sýnist sem svo að í þeim slagorðaflaumi sem hefur oft einkennt umræðuna hafa stjórnarflokkarnir talið sér trú um að búið væri að finna einhverja gullæð sem hægt væri að ná gullinu úr og það hefði ekki nein áhrif á umhverfið. Mér finnst ótrúlegt, og vildi heyra sjónarmið hv. þingmanns á því, að ekkert hefur verið skoðað hvaða áhrif þessi óhóflega skattlagning getur haft, hvaða áhrif hitt frumvarpið mun hafa, frumvarp sem mun koma á — ég ætla ekki að segja einræði, virðulegi forseti, en við getum sagt að sem svo að sá hæstv. ráðherra sem fer með þennan málaflokk hefur gríðarleg völd um það hverjir lifa og hverjir deyja í greininni. Ríkisafskiptin munu verða algerlega yfirgnæfandi vegna þessara skattáforma og þeirra breytinga sem gerðar verða á kerfinu.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki að hér sé um að ræða grundvallarmál sem snerti öll heimilin í landinu. Ég tel það algerlega óforsvaranlegt að við séum ekki búin að gera úttekt á áhrifunum á hagkerfið í heild sinni. Ef við tökum eina atvinnugrein, undirstöðuatvinnugrein og blóðmjólkum hana með þessum hætti, hvaða áhrif hefur það? Hér tala hv. stjórnarþingmenn eins og það hafi bara þau áhrif að allir þeir sem ekki vinna beint að greininni muni hafa það svo miklu betra vegna þess að hægt sé að búa til jarðgöng út um allt land. Það er alvarlegasti þátturinn (Forseti hringir.) í mínum huga. Það er verið að vega (Forseti hringir.) að grundvallaratvinnuvegi íslensku þjóðarinnar.