140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var alveg hárrétt lýsing hjá hv. þingmanni, umræðan um þetta mál af hálfu stjórnarliða ber þess merki að þeir telja sig hafa fundið einhvers konar gullæð, að þarna liggi gríðarleg verðmæti á lausu sem hægt sé að nýta. En hvers vegna urðu þessi verðmæti til? Urðu þau til með þessu kerfi sem sama fólk er búið að fordæma í 10–20 ár? Það er ekki svo langt síðan sjávarútvegur á Íslandi var rekinn með viðvarandi halla og var baggi á ríkinu. Það þurfti hvað eftir annað að fella gengið. Nú hefur sjávarútvegskerfið skilað slíkum árangri að stjórnarliðar telja að orðin séu til gríðarleg verðmæti sem þeir geti seilst í.

Hv. þingmaður nefndi Þjóðviljann í ræðu sinni áðan og sagðist hafa lesið hann. Hann talaði líka um að umræðan minnti mjög á málflutning kommúnista á árum áður, og ég hef bent á það líka, meira að segja er hugtakanotkunin mjög svipuð því sem tíðkaðist hjá kommúnistum á Íslandi á millistríðsárunum. Í eina tíð stóð sjávarútvegurinn ekki jafnsterkum fótum og nú og þá beindu íslenskir kommúnistar sjónum sínum annað. Ég les hér upp úr Þjóðviljanum, með leyfi forseta, frá 8. apríl 1937:

„En það er tvent, sem menn altaf verða að muna að er skilyrði fyrir því að sjávarútvegurinn á Íslandi rétti við (ekki síður en nýbyggingar á landi og endurnýjun flotans), og það er að létt sé af sjávarútveginum hinum þunga skatti, sem hann nú geldur til olíuhringa, salthringa, kolahringa, veiðarfærakaupmanna — og síðast en ekki síst bankanna.“