140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:10]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er staðan þannig að lítið hefur verið fjárfest í sjávarútvegi á síðustu þremur árum vegna óvissu. Talið er að uppsöfnuð fjárfestingarþörf íslensks sjávarútvegs sé í kringum 60 milljarðar og við getum öll ímyndað okkur hversu gríðarleg áhrif það hefði á hagkerfið og atvinnumarkaðinn ef þær fjárfestingar færu af stað. Sjávarútvegurinn hefur greitt niður skuldir á síðustu árum og lagað stöðu greinarinnar heilmikið á heildina litið.

Samkvæmt þeim hugmyndum sem ræddar eru í tengslum við veiðiskattsfrumvarpið og koma fram í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar á að færa heilmikið af fjármunum úr sjávarútvegi til fjárfestinga í öðrum verkefnum á vegum ríkisins, ef ég skil þetta rétt. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim verkefnum en hér er verið að tala um 1,5 milljarða í Kvikmyndasjóð, 750 millj. í skapandi greinar, 600 millj. í netríkið Ísland, 150 millj. í grænar fjárfestingar, 1 milljarð í grænan fjárfestingarsjóð, 1,5 milljarða í grænkun fyrirtækja og 600 millj. í vistvæn innkaup. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessa máls.

Í mínum huga er þetta svolítið eins og þegar menn þurfa að eiga fyrir mjólk og brauði sé verið að kaupa lúxusvörur. Þetta eru verkefni sem mann langar til að fara í en maður ræðst ekki í þau fyrr en maður hefur sinnt grunnþörfunum sínum. Er líklegt að þessi verkefni og fjárfesting í þeim, með fullri virðingu fyrir þessum hugmyndum, skapi eins mikinn aukinn arð í samfélaginu, eins mikla atvinnu og stuðli að eins mikilli verðmætasköpun og sú brýna fjárfesting (Forseti hringir.) sem er fyrir hendi í sjávarútvegi mun augljóslega leiða fram?