140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Í grein sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skrifaði í Sjómannadagsblaðið um nýliðna helgi segir hann:

„Það er ánægjulegt að lifa og hrærast með því hversu vel gengur í sjávarútvegi um þessar mundir.“

Svo talar hæstv. ráðherra um þær breytingar sem hann stendur nú fyrir á kerfinu og segir:

„Það hlutverk stjórnvalda hefur verið að reyna að sætta sjónarmið mismunandi hópa sem takast á í þessu máli. Markmiðið er að tryggja sjónarmið um atvinnuréttindi, sanngjarnan leigumarkað, sjálfbærni fiskveiða, traust rekstrarumhverfi greinarinnar. Verkefnið er erfitt en ekki óleysanlegt og það er mikið í húfi. Á öllum þeim er málið varðar hvílir sú skylda að leggja sitt af mörkum og vel að merkja, þetta varðar okkur öll.“

Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvort hann telji að ríkisstjórnin og meirihlutaflokkarnir á þingi vinni eftir þessum boðskap (Forseti hringir.) hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. (Forseti hringir.) Telur hann eins og segir hér að það sé ánægjulegt að hrærast í sjávarútvegi í dag og vinna þar? (Forseti hringir.) Telur hann að stjórnvöld hafi lagt sitt á vogarskálarnar til að reyna að vinna að þessu máli í sátt?