140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu hægt að hafa margar skoðanir á þessu frumvarpi og báðum þessum frumvörpum í rauninni. Ef við einblínum á það mál sem nú er til umræðu, veiðigjöldin, má segja að um það geta verið mismunandi pólitískar skoðanir og að sjálfsögðu mismunandi almennar skoðanir á því hvernig og hvort eigi að innheimta veiðigjald.

Það sem mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í er sú sýn sem ég gæti trúað að hv. þingmaður hafi á þetta frumvarp út frá hagfræðikunnáttu hans, þ.e. sú hagfræðilega sýn sem hv. þingmaður kann að hafa lagt á frumvarpið, um áhrif veiðigjaldafrumvarpsins á atvinnugreinina í heild. Mér hefur sýnst af þeim umsögnum sem fram hafa komið að verulega hafi skort á að mat hafi verið lagt á það, af hálfu þeirra sem lögðu málið fram í upphafi, að sett hafi verið á málið hagfræðilegt rými til að sjá hvaða áhrif málið hefði út frá þeim fræðum sem þar eru stunduð.