140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er heila málið. Frumvarpið eins og það kom inn í þingið var svo illa úr garði gert að allt að því ómögulegt var að leggja eitthvert raunverulegt mat á það. Eitt er þó alveg víst að sú reikniregla sem lögð var fram og átti að ná utan um auðlindarentu var auðvitað herfilegur misskilningur. Hún gerði það ekkert og allir þeir fræðimenn sem hafa fjallað um þetta, þeir sem best til þekkja til þeirra fræða hafa sagt að þetta nái ekki nokkurri átt. Þeir sem skrifuðu regluna hafi einfaldlega alls ekki skilið það hugtak. Auðvitað er það ekki gott fyrir okkur í þinginu að fá málið svona unnið. Það segir sig sjálft.

Ég tel það augljóst, bæði af þeim umsögnum sem hafa komið og þegar maður les þetta í gegn, að afleiðingarnar af frumvarpinu eins og það hefur verið lagt fram séu mjög slæmar. Það hefur komið fram hjá mörgum aðilum. Og síðan eigum við eftir að fá mat frá sömu aðilum á því hvort þær hugmyndir sem komið hafa fram í nefndinni sem fjallaði um málið, til hvaða niðurstöðu þær leiða. Það er svo annað mál.