140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:50]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Um leið og ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu þótt hún hafi ekki bætt miklu við fyrri ræður hans um sama mál þá kallaði hann eftir því og sagði að engir hagfræðingar hefðu talið að þessi aðferð við útreikningana á gjaldinu væri tæk. Ég vil þá vísa til — ég hef ekki allar umsagnir sem bárust atvinnuveganefnd en í umsögn Alþýðusambands Íslands sem unnin er af hagdeild Alþýðusambandsins og undirrituð af Ólafi Darra Andrasyni hagfræðingi segir, með leyfi forseta:

„ASÍ telur skynsamlegt að sérstaka veiðileyfagjaldið verði skilgreint sem hlutdeild í „umframhagnaði“ greinarinnar þar sem gengið sé út frá framleiðni að frádreginni árgreiðslu sem dugi til að tryggja bæði eðlilega endurfjárfestingu og ávöxtun á eigið fé. Slík nálgun er í senn skynsamleg og sanngjörn.“

Efnislega er einnig tekið undir þessa umsögn í umsögn Starfsgreinasambands Íslands, en að því eiga aðild eins og þingmaðurinn veit afskaplega mörg og stór verkalýðsfélög.

Að lokum vil ég spyrja þingmanninn af því að hann nefnir að senda þurfi þær tillögur sem lagðar hafa verið fram til breytinga á þessu — hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér (Forseti hringir.) að það gerist þá á milli 2. og 3. umr.