140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þannig með svona reiknireglur að þegar kemur að því að fara nákvæmlega ofan í útfærsluna á því, þó að maður geti haft þá meginhugsun að standa eigi að þessum hlutum með þessum hætti, þá er mjög áhugavert að sjá hver niðurstaða og afstaða Alþýðusambandsins er. Það væri ágætt úr því að hv. þingmaður er með þetta plagg í höndunum að hann mundi þá lesa niðurstöðu Alþýðusambandsins um þetta mál, hvar það stendur í málinu.

Hvað varðar þá spurningu hvenær eigi að senda þær tillögur út sem hafa komið fram, þá tel ég að það eigi að gera núna. Nefndin getur fundað þó að umræðan standi yfir. Hún getur tekið ákvörðun um að senda þetta út þannig að hægt sé að ræða niðurstöðurnar og athugasemdirnar meðan á þessari umræðu stendur. Ég held að skynsamlegt sé að gera það strax þannig að við getum byrjað að ræða þetta út frá þeim athugasemdum sem koma frá þeim aðilum sem gerst þekkja til þessara hluta.

Enn og aftur, virðulegi forseti, það er einmitt í svona reiknireglum sem hættan felst. Þetta þekkir hv. þingmaður ábyggilega vel.