140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kemur úr Suðurkjördæmi þar sem eru nokkrir stórir útgerðarstaðir í útgerðarlegu tilliti, kannski ekki allir mjög fjölmennir, nefni ég t.d. Grindavík, Þorlákshöfn, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjar. Ég vona að ég móðgi engan þótt ég nefni ekki fleiri.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í, sem þingmaðurinn kom reyndar aðeins inn á, eru þau viðbrögð sem við höfum fengið frá bæjum og þorpum við þessum frumvörpum ríkisstjórnarinnar og eru öll á einn veg. Viðbrögðin eru öll hin sömu, að sveitarfélögin og jafnvel verkalýðsfélögin eða þeir sem hafa yfirsýn yfir þau samfélög sem um ræðir lýsa miklum áhyggjum af því ef frumvörpin verða að lögum. Ef ég tala í þetta sinn bara um veiðigjaldið telja þessir aðilar að með því sé verið að taka of mikla fjármuni úr samfélaginu og áhrifin verði því veruleg.

Frú forseti. Mér finnst eins og stjórnarþingmenn láti þessar athugasemdir fram hjá sér fara, þær virðast í það minnsta ekki hafa mikil áhrif á þá, svo einbeittur er viljinn til að ná þessari vitleysu í gegn eins og hún lítur út í dag í það minnsta. Ég vona samt að eitthvert vit komist í þetta og það breytist eitthvað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort óttinn sem fram kemur í umsögnunum sé trúverðugur, hvort hann sé sá sami þegar farið er heim eins og á sjómannadag og spjallað við fólkið sem um ræðir og býr þarna.