140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Það er rétt hjá hv. þingmanni, hann er glöggur, það eru margir öflugir sjávarútvegsbæir og -bæjarfélög í Suðurkjördæmi, Hornafjörður, Grindavík, Vestmannaeyjar, og auðvitað hafa menn áhyggjur á öllum þessum stöðum. Ég var svo heppin að fá að heimsækja Vestmannaeyjar á sjómannadaginn og hitti þar fjölda manns. Hápunkturinn var að sjálfsögðu að hitta Eyjamenn sem fögnuðu þar þessum mikla gleðidegi, en auðvitað lituðu áhyggjur daginn. Jafnframt vil ég vekja athygli á því að á mánudeginum eftir sjómannadag var haldinn 400 manna fundur í Höllinni í Eyjum þar sem stéttarfélög sjómanna og landverkafólks komu saman og ályktuðu einróma. Í þeirra ályktun kom fram, með leyfi forseta:

„… að frumvörpin um sjávarútveginn sem liggja nú fyrir Alþingi eru klárlega aðför að kjörum sjómanna og landverkafólks. Það er morgunljóst að auðlindagjald í sjávarútvegi kemur til með að rýra kjör þeirra. Allir aðilar sem hafa skilað umsögnum um frumvörpin eru sammála um að svo sé.“

Fundurinn tók heils hugar undir þá skoðun að auðlindagjald í sjávarútvegi væri í raun landsbyggðarskattur. Þarna kristallast sú skoðun sem okkur berst hvaðanæva að frá sjávarbyggðunum í landinu, norðan, austan og vestan. Auðvitað skilur maður það. Við Íslendingar erum öll á sama báti. Ef sjávarútvegur gengur ekki vel finnum við öll fyrir því vegna þess að hann er grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar og skapar þegar vel gengur gríðarlegar gjaldeyristekjur. Við eigum að sjálfsögðu að hlúa að þessari miklu og öflugu atvinnugrein og einbeita okkur að því.