140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hún er undarleg þessi regla sem forsetar hafa allt í einu tekið upp, að menn þurfi að biðja um að fá að koma í andsvar, en við hljótum að venjast þessu.

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Auðvitað er þetta landsbyggðarskattur sem verið er að leggja á. Ég minni á niðurlag álits Byggðastofnunar í því sambandi þar sem segir einfaldlega að færa megi fyrir því rök að um sé að ræða hreinan landsbyggðarskatt með því að leggja fram það frumvarp sem hér er. Það kann að vera að einhverjum þingmanni finnist sjálfsagt að landsbyggðin leggi enn meira á sig og beri enn meira af byrðunum til að halda uppi samfélaginu. Einhverjir hafa nefnt að það sé rangt að etja saman landsbyggð og höfuðborgarsvæði í þessum málum. Það er alls ekki verið að því. Staðreyndirnar eru bara þær að 2 af hverjum 3 kr. sem landsbyggðin framleiðir verða eftir á höfuðborgarsvæðinu. Þessu tengt eru langflest þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi á höfuðborgarsvæðinu þannig að minnki umsvif sjávarútvegsins, sem er augljóst að verður afleiðing þessara frumvarpa, þá dregst saman hjá þessum fyrirtækjum, auk þess leggst sérstakur skattur á ákveðna aðila sem eru teknir út úr menginu og látnir borga sérstaklega.

Það hlýtur hver maður að sjá að það kemur við rekstur útvegsfyrirtækja með starfsemi á þremur, fjórum stöðum á landinu, t.d. fjóra togara, þegar þau þurfa skyndilega að greiða rúmar 900 milljónir í stað 200–300 milljóna í veiðigjöld. Hvað gera fyrirtækin þá? Þau reyna að bregðast við auknum kostnaði eins og öll önnur fyrirtæki með því að draga saman seglin. Þannig hlýtur það að vera, frú forseti. (Forseti hringir.)

Við þingmenn hljótum því að spyrja okkur: Getur verið að áhrifin verði enn meiri en okkur dettur nokkurn tíma í hug?