140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Takk fyrir þetta. Þetta viðhorf, sem hv. þingmaður vísaði til varðandi landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið, kom m.a. fram í einni ræðunni á útifundinum í gær og hefur jafnframt borið á góma í þeim ályktunum sem okkur hafa borist, þ.e. þetta sjónarmið um að höfuðborgarsvæðið hafi notið góðs af hagvextinum meðan á hinu svokallaða góðæri stóð en þess hagvaxtar hafi ekki gætt á landsbyggðinni en nú þegar horfir betur við á landsbyggðinni og betur vegnar vilja stjórnvöld gera þann hagvöxt upptækan.

Jafnframt hefur verið bent á að skattlagningin sem boðuð er í því frumvarpi sem við ræðum komi til með að hafa áhrif á að endurnýjun tækja verði ekki sem skyldi, það dragi úr samfélagslegri uppbyggingu, framþróun í veiðarfæragerð, framþróun tæknibúnaðar, uppbyggingu mannvirkja, þróun markaða og auknum virðisauka sjávarfangs, að þetta komi allt til með að sitja á hakanum. Ég mundi halda að þessar afleiðingar væru alvarlegar. Okkur ber skylda til að endurhugsa þetta að mínu mati.