140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Miðað við skilgreiningu hv. þm. Magnúsar Norðdahls á því hvenær ég svara andsvörum og hvenær ekki hlýtur það að vera mat þingmannsins að hans eigið andsvar hafi hvorki verið skýrt, skorinort né eitthvert vit í því eftir því sem ég skildi hv. þingmann. Ég er hins vegar ósammála því, mér finnst alveg ágætisspurningar sem hv. þingmaður leggur fyrir mig þótt auðvitað sé í þeim tilraun til útúrsnúnings. Hv. þingmaður ætti að hafa þekkingu á að vera ekki að beita slíku í andsvörum, það er einfaldlega algjör óþarfi þegar við getum tekist málefnalega á um hlutina.

Auðlindin í hafinu er takmörkuð. Um hana þarf að setja reglur og um það snýst þetta kvótakerfi sem við höfum innleitt í okkar rétt og ef hv. þingmaður hefði hlustað á alla ræðu mína hefði hann heyrt hvernig ég fór yfir það mál. Ég veit hins vegar að hv. þingmaður hefur hlustað á fyrri ræður mínar í þessari umræðu þannig að honum hlýtur að vera orðið kunnugt um viðhorf mitt til þessa.

Það er ekki þannig að ég hafi í ræðu minni talað fyrir því að allir ættu að fara út á sjó og rányrkja stofninn. Það er fráleitt af hv. þingmanni að reyna að stilla hlutunum þannig upp. Hins vegar þekkir hv. þingmaður það að við sem aðhyllumst atvinnufrelsi viljum að fólkið geti vegna eigin framtaks uppskorið og að það sé ekki alltaf þannig að ríkið hirði af fólki þá ávexti sem það sjálft hefur haft fyrir að bæði planta og tína. Þannig er þetta einfaldlega. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir ofurskattlagningu af hálfu ríkisins sem er það viðamikil að mati þeirra sem gefið hafa umsagnir um þetta ágæta frumvarp að sjávarútvegsfyrirtækin flest hver munu ekki (Forseti hringir.) hafa hag af.