140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að hrósa hv. þingmanni fyrir að þora að koma hingað upp og ræða um þetta réttlæti vegna þess að ég held að þetta sé þriðja ræða mín um þetta mál og ég varpa þessari spurningu fram í hvert einasta skipti: Hvaða óréttlæti er verið að reyna að rétta með þessum frumvörpum? Þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar tala alltaf um að það þurfi að færa réttlæti inn í kerfið. Þess vegna finnst mér eðlilegt að ég varpi fram spurningunni: Hvenær er þessu réttlæti náð? Er það þannig að mati allra þeirra sem skipa þingsæti af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að hér sé nógu langt gengið? (Gripið fram í.) Eða hvað á að fylgja í framtíðinni og hver er til dæmis stefna Samfylkingarinnar í þessu máli? Fullnægir þetta frumvarp því eða erum við að tala um að enn verði aukið á eftir næstu kosningar og hugsanlega jafnvel strax á næsta ári? (Forseti hringir.) Ég hvet hv. þingmann einfaldlega til að fara í ræðu svo við getum rætt þetta réttlætismál frekar.