140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, út í það sem ég spurði áður hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Illuga Gunnarsson um og varðar möguleikana að ná sátt um stjórn fiskveiða. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála um að það megi byggja sátt til framtíðar á því að allir sammælist um að hanna það kerfi sem skapar sem mest verðmæti fyrir samfélagið og það sé þá nánast bara verkfræðilegt úrlausnarefni þeirra sem þekkja best til, sérfræðinga á þessu sviði, að hanna kerfið. Liður í því er að sjálfsögðu að hægt verði að reka fyrirtæki í sjávarútvegi með hagnaði. Það þarf að vera til staðar sá hvati. Er hv. þingmaður sammála mér um (Forseti hringir.) að það eigi að vera hægt að hanna þann ramma utan um stjórn fiskveiða sem hámarki verðmætasköpun í greininni?