140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:19]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að nema staðar við smábátakerfið vegna þess að ég held að menn geri sér ekki alveg grein fyrir þeirri miklu breytingu sem varð þegar því kerfi var komið á laggirnar. Þá var tekin um það pólitísk ákvörðun að færa veiðirétt til smábátakerfisins til þess að skapa m.a. viðspyrnu í minni byggðum. Ég tel að það hafi gengið vel. Það var gæfa þess kerfis að það var byggt upp í grundvallaratriðum eins og hvert annað aflahlutdeildarkerfi með framseljanlegum fiskveiðiréttindum innan þess. Síðan bjuggum við til alls konar hvata eins og línuívilnun, sem er gott dæmi, til að skapa viðspyrnu fyrir kerfið. Það var mjög umdeilt á sínum tíma og er svo sem umdeilt í dag, en ég tel að það hafi skilað miklum árangri.

Ég tók eftir því að Arthúr Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, sagði í blaðaviðtali í Brimfaxa, sem er tímarit Landssambands smábátaeigenda, að sá mikli veiðiréttur sem væri á smábátum á Íslandi vekti mikla athygli. Maður getur kannski sagt að smábátar á Íslandi séu engir smábátar vegna þess að þeir eru stórir og öflugir, en þeir skipta mjög miklu máli. (Forseti hringir.)

Þegar maður horfir til baka held ég að þetta hafi tekist bara býsna vel.