140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:20]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað hægt að ræða þessi mál endalaust en einhvern tíma hlýtur það að taka enda og verður að taka enda. Það er líka ástæða til að gera grein fyrir ákveðnum millileikjum sem eru í málinu og hafa tafið það vegna þess að það er grundvallaratriði og alveg ljóst að þetta mál verður aldrei klárað nema úr því verði unnið og á þeim nótum sem sáttanefndin skilaði á sínum tíma. 23 aðilar úr öllum greinum sjávarútvegs til sjós og lands, stjórnmálaflokkum og öðrum þáttum þurfa og eiga að koma að slíku máli. Allt annað er tímasóun.

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að spyrja: Hvort er skynsamlegra að láta niðurstöður og vinnubrögð í gerð þess frumvarps sem hér er til umræðu og annarra þátta er lúta að fiskveiðistjórn á Íslandi ráðast með tilliti og viðtöku ábendinga færustu manna í öllum greinum viðskiptalífs á Íslandi því að þeir hafa allir mótmælt því máli sem hér er verið að reyna að koma í gegn vegna þess að það sé ófullburða og til tjóns fyrir íslenska þjóð — hvort er betra að láta alla þessa aðila koma að málinu eða láta málið ráðast af geðþótta nokkurra hv. þingmanna, stjórnarsinna? Það er auðvelt að nefna dæmi. Á þetta mál að ráðast af geðþótta hv. þm. Marðar Árnasonar, Ólínu Þorvarðardóttur, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, Álfheiðar Ingadóttur … (Gripið fram í: Hv. þingmanna.) — Virðulegi forseti. Ég sagði hv. þingmanna. Á að láta þetta mál ráðast af geðþótta hv. þingmanna Þórs Saaris, Birgittu Jónsdóttur o.fl. sem eru langt frá öllum raunveruleika í búskap landsbyggðarinnar, búskap landsins og þeirri bláköldu staðreynd að útvegsmenn og sjómenn þessa lands eru meira og minna vinnumenn þjóðarinnar allrar? Að mörgu leyti er þessi grein þjóðnýtt og hefur verið áratugum saman. Auðvitað gengur ekki að láta málið ráðast af þröngum hóp hv. þingmanna sem glíma við margs konar innyflavandræði í hugmyndum sínum. (Gripið fram í.)

Það er því mikil ástæða til þess, virðulegi forseti, að hvetja menn til að hugsa sig um og reyna að koma á vinnubrögðum sem skila þessu máli áfram. Það eru margir þættir í því sem hægt er að byggja á og um mörg atriði er ekki ágreiningur, sem ætti fyrir mörgum árum að vera búið að hnýta upp og er það til mikils vansa bæði fyrir fyrrverandi ríkisstjórnir og útvegsmenn þessa lands. Samt keyra grundvallaratriði um þverbak.

Í stuttu máli eitt sjónarmið: Trillukarl á Akranesi sem veiðir við Skagann borgar upp 30–40 millj. kr. skuld frá því að hann fjárfesti í útgerð sinni. Er sanngjarnt að við hliðina á honum séu menn að veiða í strandveiðikerfi, þrír um borð, rafvirki, kennari og skipstjóri sem er í fríi? Slík dæmi eru raunsönn. Auðvitað er þetta ekki boðlegt. Strandveiðikerfið er spennandi á margan hátt en það gengur ekki eins og það er sett upp. Það er m.a. þess vegna sem deilan er svo mikil um það sem lýtur að pottaskiptingunni. Það er ekkert jafnræði eða samræmi í því sem verður að gera heldur mismunun á mismunun ofan.

Ég vil vekja athygli á öðru atriði, virðulegi forseti. Það er hinn stórkostlegi fundur á Austurvelli í gær. Oft hef ég sem þjóðernissinni verið stoltur af því að vera Íslendingur en aldrei eins og í gær niðri á bryggju að fylgjast með umsvifum nær 100 skipa flota sem kom hvaðanæva að af landinu til hafnarinnar í höfuðborginni og þeytti til áherslu flautur sínar á hálftíma fresti. Þetta var stórkostleg upplifun. Það var svo magnað að skynja hvað afl Íslands er geypilega sterkt og mikið þegar maður hefur það nánast í hendi, þegar maður er í miðjum darraðardansinum. Það sýnir líka hvað það skiptir miklu máli að við kunnum að fara með þetta afl, sýna því virðingu um leið og við nýtum það eins og hægt er.

Aðkoma fjölmiðla landsins, sérstaklega Ríkisútvarpsins, einnig Fréttablaðsins og Stöðvar 2, var til háborinnar skammar gagnvart fólki landsins í gær. Það var vel á þriðja þúsund manns á Austurvelli. Það kann ég að telja sem gamall stjórnandi útihátíða. Það voru um 200 menn á Austurvelli sem komu þangað til að eyðileggja fundinn. Milli 70 og 80 bauluðu stanslaust, hlustuðu ekki á neina ræðu heldur bauluðu stanslaust sjúklegu bauli til að eyðileggja það að fólk fengi að tjá sig á fundinum, fólk sem er landverkafólk, sjómenn, útvegsmenn og talsmenn sveitarfélaga landsins. Hvílík skömm. Þetta fólk, vælukjóarnir, baulararnir, fékk aðaltímann í fréttum Ríkisútvarpsins. Það er mín skoðun að komið sé að því að Alþingi ræði það í alvöru hvort ekki sé kominn tími til að loka fréttastofu Ríkisútvarpsins. Hún er ekki fréttastofa, hún er málflutningsstofa og hæstiréttur í málflutningsstofunni er svokallaður Spegill sem er ekki spegill af þjóðinni eða þjóðlífinu. Hann er afskræming á þjóðlífinu. Hann túlkar sérhagsmunapot og hugmyndir margra fréttamanna Ríkisútvarpsins sem um árabil hafa ruglað saman fréttum og t.d. hugmyndum sínum gagnvart Evrópusambandinu og mörgum öðrum þáttum sem við erum að véla um frá degi til dags. Það er komið að því að of langt er gengið varðandi Ríkisútvarpið í þessum efnum.