140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá hv. þm. Árna Johnsen. Hann lýsti sér hér sem þjóðernissinna sem vildi láta loka fréttastofu Ríkisútvarpsins og telur að það frumvarp sem hér liggur frammi sé geðþóttaákvörðun nokkurra þingmanna. Þetta frumvarp byggir hins vegar á áralangri vinnu fjölmargra aðila, síðast á árunum 2009–2010 þar sem 18 hagsmunaaðilar úr greininni, m.a. sveitarfélög, félög sjómanna, útgerðarmanna og fiskverkenda og stjórnmálamenn, skiluðu skýrslu þar sem lagt var til að stjórn fiskveiða yrði byggð á (Forseti hringir.) þeirri niðurstöðu sem þar kemur fram.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé andsnúinn niðurstöðunni um að móta eigi stjórn fiskveiða, þá sérstaklega hvernig eigi að innheimta auðlindagjald eins og fram kemur í þeirri skýrslu og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins skrifaði upp á.