140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti fyrir mér hvað það er sem menn geta misskilið í eftirfarandi orðum. Með leyfi forseta sagði hv. þingmaður:

„Það er til skammar að hv. þingmaður“ — sem var Lilja Rafney Magnúsdóttir — „sem kemur úr sjávarplássi og tengist í marga ættliði sjómönnum, sem að vísu hafa nánast allir selt þann kvóta sem þeir höfðu, ekki skipin heldur seldu þeir kvótann líka, skuli tala svona. Það skal tala varlega í þannig slettum. Það er staðreynd. Þegar spurt er með slíkum hroka er rétt að fá smápus í andlitið á móti.“

Síðar í ræðu sinni sagði hv. þingmaður:

„Þeir einu sem hugsanlega græða eru þeir sem koma aftur inn í kerfið, jafnvel eftir að hafa selt sig út úr því oftar en einu sinni, oftar en tvisvar, oftar en þrisvar, oftar en fjórum sinnum, allt að fimm sinnum. Hér inni eru hv. þingmenn sem hafa reynslu af þessum leik þó að þeir segi kannski: Nei, það var ekki seldur kvóti, það var selt skip, það bara fylgdi kvóti.“

Ég get haldið áfram að vitna í orð hv. þm. Árna Johnsens. Það er ómögulegt að misskilja þau og því spyr ég aftur: Hefur hv. þingmaður manndóm til að biðjast afsökunar á orðum sínum og draga þau (Forseti hringir.) til baka?