140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað má segja að í ferlinu öllu endurspeglist ákveðið virðingarleysi, ekki bara við aðila í sjávarútvegi, ekki bara við það fólk sem starfar í sjávarútvegi, launafólk og atvinnurekendur heldur miklu fleiri, fulltrúa sveitarfélaganna í landinu og annarra. Að það skuli standa upp úr þegar vinna hófst við þetta í sjávarútvegsráðuneytinu um síðustu áramót og þrátt fyrir orð hæstv. sjávarútvegsráðherra um að fjöldi funda hafi verið haldinn þá vitum við að ekki var talað við neinn, ekkert samráð var haft við neinn aðila. Það voru tveir fundir sem hæstv. ráðherra hélt með fulltrúum LÍÚ að þeirra beiðni, einn í febrúar og einn í mars, stuttir fundir, ekkert efnislega rætt. Þetta viðhorf endurspeglast þarna og við verðum allt of mikið vör við þetta í umræðunni (Forseti hringir.) og ég held að það sé stundum af pólitískum toga. Menn eru að reyna að nýta sér einhverja grýlu í pólitískum tilgangi sem þeir hafa búið til (Forseti hringir.) en ekki síður held ég að það sé hjá mörgum af hreinni vanþekkingu.