140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er þetta með stökustu ólíkindum. Í skýringum við frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða.“

Þetta var lýsing stjórnarmeirihlutans á markmiðum þeirra frumvarpa sem hafa verið lögð fram. Að mínu mati sýna umsagnir sérfræðinga sem skilað hefur verið vegna þessara frumvarpa að þau ganga þvert gegn öllum meginmarkmiðunum sem sett eru fram í greinargerðinni. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður sammála því mati?