140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:32]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Norðdahl veit ósköp vel að það er djúpstæður ágreiningur um þinglokin, hann veit að það er gríðarlegur ágreiningur um hitt sjávarútvegsmálið og það er vilji ríkisstjórnarinnar að keyra öll mál í gegn án tillits til þess hvernig þau eru búin. Í því ljósi er sú umræða sem hér fer fram nauðsynleg.

Það er líka rétt sem kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal og þingmenn ættu að velta fyrir sér, að það er hægt að gera hlé á umræðunni og setja málið til nefndarinnar og fara yfir þær umsagnir og þær athugasemdir sem fram hafa komið. Það hefur enginn slíkur vilji komið fram hjá hv. stjórnarmeirihluta. (REÁ: Þrátt fyrir boð.)

Síðan vil ég gera athugasemd við fundarstjórn forseta. Þegar hæstv. forseti segir að ekki sé búið að taka neinar ákvarðanir um það hve lengi eigi að halda áfram inn í nóttina — hvers konar skipulag er þetta eiginlega? Á þetta bara að ráðast og menn eiga síðan að koma aftur kl. 10.30 í fyrramálið? Þetta skipulagsleysi (Forseti hringir.) á nóttunni er gersamlega óþolandi.