140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Árna Johnsens að hann sagði að útgerðin hefði verið þjóðnýtt. Ég sagði fyrr í umræðunni að sennilega væri engin atvinnugrein í heiminum eins mikilli reglu bundin og sjávarútvegur á Íslandi og þá á ég við bundin með lögum. Það eru ótrúlegar lagagreinar til um sjávarútveg, ég eyddi einu sinni einu sumri í að lesa öll lög sem gilda um sjávarútveg. Það var mikil lesning. Þegar ég var búinn að lesa það fór ég að spjalla við menn sem starfa í sjávarútvegi og lögfræðinga og aðra slíka og þá var framkvæmdin allt önnur en ég hélt.

Hv. þm. Árni Johnsen kemur frá Vestmannaeyjum og ég vil geta þess til að létta brúnina á þingmanninum og af því að farið er að birta af degi, farið að draga frá, að ég var einu sinni háseti á Heimaey VE 1. Þegar ég kom niður í káetuna í fyrsta skipti var eins og ég hefði alltaf átt heima þarna, mér leið óskaplega vel um borð. Ég hef því smáreynslu af því að vera sjómaður. Svo lentum við reyndar í brælu, 10–12 vindstig held ég að það hafi verið, 12 vindstig þegar verst lét og þá lá öll áhöfnin í koju nema ég og kokkurinn. Hann eldaði, ég át og stýrði. Það var afskaplega góð vinnuskipting. En ég nefndi þetta bara rétt til að létta brúnina á fólki, þetta voru ekki nema tíu dagar að ég held. En ég á réttindi í Lífeyrissjóði sjómanna. Það er afrek.

Ég ætlaði að ræða um kvótagreifa. Ég held að stór ástæða fyrir þessum breytingum og þeirri heift sem kemur upp sé öfund og óréttlæti. Menn telji það óréttlátt að einhver hafi grætt lifandis býsn á því að hafa selt kvótann, selt fiskinn sem syndir í sjónum, selt réttinn til að veiða fisk. En það merkilega er að þeir aðilar eru ekki í útgerð lengur. Þetta frumvarp tekur ekkert á því. Það tekur ekki á þeim sem búnir eru að selja. Nánast allir sem eru í útgerð í dag hafa annaðhvort keypt kvótann dýru verði fyrir íslenskar krónur eða þá aldrei selt kvóta. Einstaka maður hefur selt og selt aftur og er enn þá að veiða. En það er heldur ekki tekið á þeim sem hafa selt einu sinni eða tvisvar og eru enn að veiða vegna allra þeirra undantekninga sem menn hafa gert með smábátana, með strandveiðarnar o.s.frv. Það er alltaf verið að búa til nýja greifa sem geta selt en það er önnur saga.

Ég vil ítreka að velflestir þeirra sem eru í útgerð hafa annaðhvort aldrei selt kvóta eða hafa keypt hann. Þeir eru því ekki kvótagreifar í venjulegum skilningi. Og ég hef talað við slíka menn. Þeir eru svo uppteknir af þessari atvinnugrein sinni að þeir geta varla skroppið frá, þeir eru eiginlega fangar áhuga síns á greininni.

Ég hef sagt það áður að í þessum frumvörpum sé mikil sovéthugsun, það er eins og eitthvert fólk við skrifborð geti séð fyrir allt sem mun gerast. Ég vil benda á að breytingartillögu meiri hlutans stendur, með leyfi frú forseta, í 6. lið:

„Ákvæði til bráðabirgða orðist svo:

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 8. gr. skal sérstakt veiðigjald vera með eftirfarandi hætti:

29,13 kr. á hvert þorskígildiskíló í botnfiskveiðum og 33,08 kr. á hvert þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum á fiskveiðiárinu 2012/2013.“

Það eru félagar mínir, frú forseti, hv. þingmenn í meiri hluta nefndarinnar sem komast að þeirri snilldarlegu niðurstöðu að auðlindarentan sé akkúrat 29 krónur og 13 aurar á hvert kíló. Þvílík er snilldin. Svona vita þeir vel hvað gerist eftir 1. september næstkomandi og allt heila árið þar á eftir.

Svo fór ég að velta fyrir mér hvort almenna gjaldið væri innifalið í þessu vegna þess að þarna stendur að málsgreinin orðist svona og þá fellur væntanlega burt það sem stendur í 1. mgr. 8. gr. um að sérstaka veiðigjaldið skuli skilgreint í krónum á hvert þorskígildiskíló eftir veiðiflokkum, o.s.frv., að frádregnu almenna veiðigjaldinu. Almenna veiðigjaldið dregst þar frá en vegna þess að allri málsgreininni er skipt út bætist það væntanlega við, þannig að á endanum 1. september nk. munu útgerðarmenn borga 38,63 kr. fyrir hvert þorskígildiskíló í botnfiskveiðum og 42,58 kr. fyrir hvert þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum allt árið. Það er eins gott, frú forseti, að það verði ekki verðfall erlendis eða mikil hækkun á útgerðarkostnaði. Þarna eru skriffinnarnir í sovétinu búnir að sjá fyrir þessu. Þetta er auðlegðarrentan og ekki nema brot af henni því þeir eru mjög mildir til að byrja með, þeir ætla að aðlaga þetta greininni.

Svo getur vel verið að það verði dúndurhagnaður þrátt fyrir þetta. Það getur verið að gengið sunki enn meira til hagsbóta fyrir heimilin eða hitt þó heldur. Forsenda þess hagnaðar sem er í útgerðinni í dag er einmitt hvað gengið er lágt og hvað fjölskyldum á Íslandi líður illa. Gengið féll náttúrlega til að bjarga stöðu útflutningsgreinanna og viðhalda atvinnu í landinu, sem það hefði gert, og útgerðin gengur þess vegna glimrandi vel. En ég veit ekki hvort menn halda því áfram allt næsta fiskveiðiár og öll næstu árin. Það er eins og allt gangi út á það að viðhalda hörmungum heimilanna næstu árin. En ég ætla ekki að æsa mig yfir þessu.

Ég ætla síðan að ræða um þá grein í breytingartillögu meiri hlutans þar sem talar er um keypta aflamarkið og frádrátt fyrir þá sem tóku lán. Nú ætla menn líka að vera góðir við þá sem skulda, þá sem hafa keypt aflamark og borgað með skuldum, frú forseti. Það eru alltaf skuldararnir sem hv. þingmenn hugsa um. En þeir gleyma einu. Sá sem keypti aflaheimildir með hlutafé fær ekki neitt. Hér gildir áfram sama hugsunin, eins og hefur komið fram í umræðunni áður, að það á að verðlauna þá sem skulda, verðlauna þá sem taka lán og refsa þeim sem annaðhvort hafa notað áhættufé eða eigin peninga til að kaupa. Þeir fá engan frádrátt. Þeir eru líka með fórnarvexti, frú forseti. En í þessari heilmiklu grein um keypta aflamarkið má sjá að hv. nefndarmenn í meiri hlutanum hafa heldur betur lagt heilann í bleyti og úthugsað öll ráð og gagnráð og séð hvað geti gerst í öllu þessu næstu fiskveiðiárin. Frádrátturinn fyrir þá sem tóku lán gildir reyndar til ársloka 2011 og þetta má draga frá einhver ár fram í tímann, allt til 2018. Svona eru menn framsýnir. Svo langt sjá menn við grænu skrifborðin. Hv. þingmenn á Alþingi Íslendinga í þessari nefnd sjá fyrir hvað mun gerast til ársins 2018, yndislegt. Þetta er skelfilegt forrit, afsakið skelfilegt frumvarp, en þetta er í rauninni forrit ef maður hugsar rétt um það. Mér rataðist þarna satt orð á munn.

Ég ætla að ræða um Alþýðusambandið og umsögn Alþýðusambandsins. Nú er ekki nema 1 mínúta og 27 sekúndur eftir þannig að mér gefst ekki mikill tími til að ræða umsögn Alþýðusambandsins en hún er mjög athyglisverð, sérstaklega hvernig þeir hjá sambandinu skilgreina náttúruauðlind. Það eru nytjastofnar eða náttúruauðlindir í þjóðlendum, ekkert annað. Sjá þeir engar aðrar auðlindir? Ég er þó margbúinn að benda á til dæmis rafsegulbylgjutíðnisvið sem ríkið úthlutar þeim sem vilja senda skilaboð gegnum tölvur, síma o.s.frv. Það verður mikil auðlind eftir ekki mjög langan tíma. Er þetta ekki auðlind? Af hverju kemur ASÍ ekki inn á þetta?

Ég tel líka að kolefnisskattarnir sem Evrópusambandið er að koma með muni verða ein stærsta auðlind Íslands en ASÍ talar ekkert um þá. Þeir eru nefnilega hvorki nytjastofnar á Íslandsmiðum né náttúruauðlind í þjóðlendum. Þarna hefur myndast markaður með losunarheimildir og hann mun hækka verð á raforku um allan heim, þeirri raforku sem er framleidd með bræðslu jarðefna, kola, bensíns og gass — og mestallt rafmagnið í heiminum er framleitt þannig. Raforkuverð mun hækka alls staðar nema á Íslandi, þ.e. framleiðslukostnaðurinn mun ekki hækka, við græðum meira.