140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðuna sem var ágæt að mörgu leyti. Þingmaðurinn hefur eins og ég hef áður sagt í ræðustól sett sig vel inn í málefni sjávarútvegsins og flutt um það sérstakt frumvarp á þingi.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði í upphafi ræðu sinnar um ástæðuna fyrir heiftinni sem oft er í umræðu um sjávarútveginn. Hún stafar að hluta til af öfund yfir því að einhverjum hafi gengið vel í greininni. Það er alþekkt. Heiftin stafar líka af ákveðnu óréttlæti, sérstaklega á árdögum kerfisins sem þarf ekki að fara yfir hér og öllum er kunnugt um, sömuleiðis vegna afleiðinganna. Sumar hverjar eru óhjákvæmilegar, m.a. þegar verið er að takmarka aðgang í auðlind eins og fiskstofnana sem hefur auðvitað haft afleiðingar um land allt.

Í fjórða lagi er það vegna ágalla í kerfinu. Mörgum eru þeir augljósir, aftur sérstaklega á árdögum kerfisins. Sumum hefur þegar verið eytt en kannski eimir enn eftir af öðrum þeirra þótt flestir séu farnir út. Heiftin stafar líka af viðbragðsleysi stjórnvalda á þeim tíma, þ.e. þegar þau brugðust ekki við fyrirsjáanlegum afleiðingum í kerfinu, m.a. vegna samþjöppunar heimilda sem var óhjákvæmilegt vegna þess að við gengumst þó loksins við því að þessi auðlind væri takmörkuð. Allt þetta er satt og rétt hjá hv. þingmanni, heiftin í umræðunni hefur verið henni skaðleg.

Eins og ég sagði áðan hefur hv. þingmaður flutt frumvarp á Alþingi um stjórn fiskveiða og ég hef kynnt mér það. Mér sýnist það frumvarp byggjast á hreinni og fullkominni fyrningarleið þar sem um er ræða algjöra innköllun aflaheimilda sem síðan verður dreift á alla landsmenn sem geta selt þær áfram og þannig náist einhvers konar fullkomið markaðskerfi hvað þetta varðar.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi sent frumvarp sitt til umsagnar og hvaða áhrif það kunni að hafa fyrir byggðir landsins og atvinnulíf í landinu, (Forseti hringir.) útgerð og fiskvinnslu, t.d. til samanburðar við það frumvarp sem við erum að ræða hér.