140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að leiðrétta hv. þingmann. Aðgerðir Evrópusambandsins verða í dag eða á morgun. Það er nefnilega kominn laugardagur.

Þetta er hárrétt, ég held að núna ætti hv. Alþingi og hæstv. ríkisstjórn að einhenda sér í að búa heimili landsins og fyrirtæki undir það sem gæti gerst. Auðvitað vonum við að það gerist ekki. Auðvitað vonum við að evran lendi ekki í einhverjum hremmingum eða skakkaföllum. Auðvitað vonum við að Evrópusambandið haldi sínum góðu lífskjörum og sinni innri efnahagslegu ró. Auðvitað vonum við að ekki verði mjög mikið atvinnuleysi í þeim löndum, auðvitað vonum við að ferðamennirnir komi hingað og að Evrópubúar borði fiskinn okkar áfram, við seljum nefnilega 70% til Evrópu, og haldi uppi eftirspurn á áli. Við þurfum samt að vera undir hitt búin.