140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:05]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Kannski er sá vandi uppi hjá okkur að við hv. þingmenn vitum öll að þetta mál mun taka langan tíma, bæði vegna þess að stjórnarandstaðan setur sig mjög fast gegn þeim tillögum sem hér eru og vegna þess hversu málið var illa búið þegar það kom til þingsins. Í sjálfu sér er ekkert skrýtið þó að það sé fundað hér fram á nótt, við þurfum að tala. Ég er þó sammála því sem hér hefur verið sagt, að það væri miklu eðlilegra að fram kæmi hversu lengi fundur ætti að standa rétt eins og það liggur fyrir hvenær fundur mun hefjast í fyrramálið. Það dytti engum í hug, virðulegi forseti, að hafa það á reiki og eins ætti auðvitað að liggja fyrir hvenær fundum er lokið. Það væri því gustuk að komast að einhverri niðurstöðu um slíkt og tilkynna hana.