140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það mundi stytta þessa umræðu um fundarstjórn forseta verulega ef forseti gæti gefið okkur svör við þeim spurningum sem við höfum spurt ítrekað um.

Ég minni hv. þingmann og hæstv. forseta aftur á starf okkar í þingskapanefndinni svokölluðu. Þar höfum við eytt mörgum klukkustundum í að ræða um bætt vinnubrögð á þingi. Ég veit að hæstv. forseti deilir þessari skoðun minni vegna þess að hún hefur látið þá skoðun í ljós í þessari nefnd að hér þurfi að verða breyting á. Því spyr ég hæstv. forseta hvort hún telji það samrýmast þeirri vinnu sem við erum í þar að þingmönnum sé ekki greint frá því hversu lengi fundur eigi að standa. Hæstv. forseta getur ekki þótt þetta viðunandi vinnubrögð. (Forseti hringir.)

Ég ítreka spurningu mína, frú forseti: Hversu lengi hefur forseti ákveðið að þessi fundur skuli standa?