140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bæta við það sem hv. þingmaður sagði um mikilvægi sprotafyrirtækja að mörg þeirra fyrirtækja sem eru býsna öflug í dag í framleiðslu- og tæknibúnaði og þjónustu við sjávarútveginn hafa orðið til vegna þess að einhver einstaklingur eða einstaklingar fá hugmyndir og vinna þær svo í samvinnu við fyrirtæki sem eru í greininni og þróa þær og þroska, ef þannig má að orði komast. Aðilar í sjávarútvegi hafa lánað hús sín og jafnvel skip undir tilraunabúnað og ýmislegt þess háttar. Samstarfið þar á milli hefur skipt gríðarlega miklu máli.

Ég þekki dæmi þess að í einu fyrirtæki eru menn búnir að eyða gríðarmiklum fjármunum í að reyna að þróa búnað sem vinnur verðmæti úr því sem annars fer í niðurföllin í frystihúsunum. Verið er að reyna að vinna prótein úr afgöngum, ef ég má orða það þannig, og jafnvel úr sullinu sem fer í niðurföllin til að nýta hráefnið sem best. Það er alveg til fyrirmyndar. Þarna sjáum við hvernig fyrirtækin leggja mikið á sig til að skapa betri ímynd og nýta betur það verðmæta hráefni sem þau nota.

Hv. þingmaður spurði um sættir. Ég er þannig þenkjandi að ég held að það sé alltaf hægt að ná sáttum á endanum og ég held líka að það sé hægt í dag. Ég held hins vegar að þeir sem ráða för í því sambandi viti nákvæmlega á hverju stendur þar.